Einkavæðing iðnnáms

Reynir bakari - Logo
Notkun Reynis bakara á orðinu Konditori óheimil
14.08.2015
Helgi Steinar Karlsson og Sigurður Már Guðjónsson
Sérhagsmunasamtök sýna klærnar
09.01.2016
Sýna allt

Einkavæðing iðnnáms

Helgi Steinar Karlsson og Sigurður Már Guðjónsson

Helgi Steinar Karlsson og Sigurður Már Guðjónsson

Við hátíðleg tækifæri tala ráðamenn þjóðarinnar um mikilvægi iðnaðarmanna og iðnmenntunar á Íslandi. Að iðngreinarnar séu kjölfesta samfélagsins og að auka þurfi áhuga ungs fólks á þeim sem raunhæfum framtíðarkosti. Hvað svo?

Undirritaðir iðnmeistarar hafa undir höndum skýrslu er nefnist „Drög starfsnáms í skóla og á vinnustað á framhaldsskólastigi í ljósi laga um framhaldsskóla og hvítbókar menntamálaráðherra“. Vinnuhópur skólameistara framhaldsskólanna fékk tækifæri til þess að sameinast um skoðun og tillögur á skipulagi og framkvæmd starfsnáms á grundvelli stefnu ráðherra. Drögin hafa ekki almennt verið kynnt iðnmeisturum eða félögum þeirra svo vitað sé. Það er okkur hulin ráðgáta hver ástæða þess er. Þar er ekki lengur gert ráð fyrir beinni aðkomu iðnmeistara þrátt fyrir að í lögum sé kveðið skýrt á um það. Í 8. gr. iðnaðarlaga segir: „Iðngreinar, sem reknar eru sem handiðnaður og löggiltar hafa verið í reglugerð ráðherra, skulu ávallt reknar undir forstöðu meistara. Meistari skal bera ábyrgð á að öll vinna sé rétt og vel af hendi leyst.¨ Ábyrgð iðnmeistaranna er því algjörlega skýr.

Afnám meistarakerfisins og einkavæðing?

Nú er komið í tísku að tala um starfsnám í stað iðnnáms. Í gildi eru fyrrgreind iðnaðarlög nr. 42/1978 sem sett voru til að tryggja góða menntun og að neytendur gangi að fagmennsku og gæðum vísum. Er verið að undirbúa afnám þess meistarakerfis sem komið var á með góðum árangri árið 1927? Hver er afstaða iðnaðarráðherra til þessara mála þar sem berlega kemur fram að verið er að færa hefðbundið iðnnám án vitundar og vilja iðnmeistara frá þeim yfir til skólanna? Eiga svo skólarnir að semja við þá sem þeir telja þess verðuga að mennta nemana?

Nú liggur fyrir að búið er að koma Iðnskólanum í Reykjavík undir Tækniskólann, skóla atvinnulífsins. Það voru stórkostleg mistök þáverandi menntamálaráðherra og Iðnskólinn í Hafnarfirði fór sömu leið í júlí sl. Sama fólkið, sem hefur staðið fyrir yfirtöku beggja þessa virðulegu iðnskóla, með vitund og vilja ráðherra menntamála, situr nú í skólanefnd Tækniskólans. Þar geta SA og SI tekið til við að semja námsskrár eftir sínum hentugleikum. Tækniskólinn ehf. er í eigu Samtaka iðnaðarins (SI) með 44%, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi með 42,5%, Iðnaðarmannfélagsins í Reykjavík með 8,5% og Samorku með 5%. Hann skilaði 51,7 milljóna króna hagnaði fyrir afskriftir og fjármagnsliði árið 2014. Við staðhæfum: Hér er verið að einkavæða iðnnám í landinu og það á að koma því öllu undir einkageirann.

Menntamálaráðherra á að vita betur

Í hvítbók á bls.37, 1.lið, stendur: „Endurskipulagning náms á starfsmenntabrautum með einfaldara grunnnám að leiðarljósi, þrepaskiptingu, hæfniskröfum og styttingu námstíma.“

Beinast liggur við að álíta að ráðherra hafi ekki kynnt sér til hlítar hve fjölþætt verkkunnátta iðnaðarmanna, til dæmis í byggingariðnaði, er mikils virði hér á landi þar sem störf eru mjög árstíðabundin. Unnt er að vinna í iðnaðinum sumar sem vetur vegna mikillar þekkingar og verkkunáttu sem núgildandi námsskrár bjóða upp á.

Þrepaskipt nám gengur ekki upp við okkar aðstæður og er vísir að árstíðabundnu atvinnuleysi, t.d. í byggingargreinunum. Með tillögunum að ofan er nánast hægt að fullyrða að ætlunin sé að skapa láglaunaiðnstörf.

Efasemdir skólameistara

„Skólameistarar starfsnámsskólanna líta svo á að ábyrgð skólanna komi ótvírætt fram í framhaldsskólalögunum en erfitt geti reynst að standa undir þeirri ábyrgð þegar margir koma að umsýslu námsins.“ Þessi athugasemd skólameistaranna bendir til þess að þeir séu ekki sannfærðir um að kerfið, sem þeir boða, gangi upp. Það er rétt. Verkleg kennsla á skólaverkstæðum iðnskólanna hefur gefist vel í mörgum greinum, og fagkennarar skólanna hafa lagt sig fram við að kenna alla meginþætti námsskránna. En það er meistarakerfið sem hefur gefist best frá upphafi og er kjölfestan. Iðnnám er einkakennsla þar sem neminn lærir handverkið hjá meistaranum sínum sem náð hefur tökum á faginu. Ef nemendur eru stöðugt fluttir á milli fyrirtækja í starfsnámi gerir það, að okkar mati, námið ómarkvissara.

Sparnaður er ekki gegnsætt hugtak

Stefnt er að styttingu náms til sparnaðar með aukinni skilvirkni. Sparnaði fyrir hverja? Það eru meistararnir sem bera mestan kostnað við menntun nemanna í dag. Þennan kostnað á að flytja yfir á ríkið í formi framlaga til hinna einkareknu iðnskóla. Nú þegar eigendur skólanna eru búnir að ná tökum á að semja námsskrár og þynna út námið mun það rýra möguleika sveina framtíðarinnar til að gera sig gildandi á vinnumarkaði, hér sem erlendis. Íslenskir iðnaðarmenn hafa hingað til verið mikils metnir hvar sem er vegna dugnaðar og þeirrar fjölbreyttu faglegu kunnáttu sem þeir koma með úr núverandi kerfi. Því má ekki að breyta.

Iðnmentor og iðnstúdent?

Samtök iðnaðarins hafa lagt fram menntastefnu sína sem aðgengileg er á heimasíðu samtakanna. Þar er tekið undir tillögur skólameistaranna hér að ofan, t.d.: „skipulagt samstarf við hóp fyrirtækja í atvinnulífinu.“ og: „fyrirtæki geti látið þjálfa upp og fengið viðurkenndan „iðnmentor“ í stað iðnmeistara“ (sem gengur í berhögg við gildandi iðnaðarlög). Jafnframt: „Samningar um verknám þurfa að vera sveigjanlegri þannig að nemandi geti farið á milli fyrirtækja og fyrirtækin beri ekki ábyrgð á öllu verknámi nemenda. Skoða þarf hvernig hægt er að taka upp frekara „víxlkerfi“. Þetta merkir væntanlega að framhaldsskólinn á að þeirra mati að bera ábyrgð á nemanum í gegnum allt námið. Hvernig getur það gerst svo skilvirkt sé? Hvar er kjölfestan? Við viljum líka benda á tillögur SI um svokallaðan sveinsprófsstúdent. Hvernig á að vera hægt að sameina fjögurra ára nám til stúdentsprófs (144 einingar) og t.d fjögurra ára iðnnám í bakaraiðn (186 einingar) og ljúka náminu á 3 árum (heilar 330 einingar). Það hlýtur að vera sérstök ráðgáta. Hvoru á að fórna, hinu bóklega eða verklega?

Í Þýskalandi eru meistararéttindi jafngild akademískum gráðum og eru flokkuð á hæfniþrep 6 (EQF). Þar geta iðnmeistarar komist hindrunarlaust í nám á fagháskólastigi. Lærum af mestu iðnaðarþjóð heims sem tryggir samfélaginu trausta, faglega þekkingu á fjölmörgum sviðum frekar en að búa til heimatilbúin vandamál með skammsýnum breytingum á menntakerfinu. Þessa þróun verður að stöðva!!!

Grein þessi var einnig birt í Morgunblaðinu í dag á bls. 17.

Höfundar:

Sigurður Már Guðjónsson
Bakara- og kökugerðarmeistari

Helgi Steinar Karlsson
Múrarameistari