Lögverndun iðngreina | Þetta mál varðar alla þá sem eru með iðnmenntun

Barnaspítali Hringsins
Konditorsamband Íslands lét gott af sér leiða
17.12.2013
Axel Þorsteinsson
Axel verður fulltrúi Íslands á Norðurlandamóti í Danmörku
12.03.2014
Sýna allt

Lögverndun iðngreina | Þetta mál varðar alla þá sem eru með iðnmenntun

Sigurður Már Guðjónsson formaður

Í október síðastliðinum bárust þær fréttir að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefði byrjað vinnu við gerð frumvarps til breytinga á iðnaðarlögum nr. 42/1978. Allt frá árinu 1927, þegar fyrst voru sett lög um iðju og iðnað í landinu, hafa störf iðnaðarmanna verið lögvernduð. Þessi iðnaðarlög hafa verið einstök á heimsvísu, að þeim þýsku frátöldum. Þau hafa bæði verndað starfsheiti iðnaðarmanna sem og rétt þeirra til starfa. Fáir munu deila um það að iðngreinarnar í landinu hafi verið kjölfesta í samfélaginu.

Iðngreinarnar hafa staðið af sér ýmis áföll svo sem kreppuna 1929 og bankahrunið 2008. Nú virðist hins vegar sem núverandi ríkisstjórn, er komst til valda með loforðum um að bæta hag heimilanna, ætli að eyða dýrmætum tíma til þess að rýra áðurnefnda kjölfestu samfélagsins. Í nafni atvinnufrelsis er gerð atlaga að þeim starfsstéttum sem haldið hafa hagkerfinu á floti síðustu áratugi, þ.e. iðnstéttunum.

Forsaga málsins er sú að haustið 2010 féllu tveir dómar í héraðsdómi Reykjaness þar sem háskólamenntað fólk var dæmt fyrir að stunda iðnrekstur án tilskilinna réttinda. Þeir sem dómana hlutu höfðu talið sig í fullum rétti þar sem menntun þeirra væri „æðri“ en iðnmenntun, en þarna héldu iðnaðarlögin og sönnuðu gildi sitt.

Í beinu framhaldi lögðu hagsmunasamtök um ljósmyndun (HUL) að iðnaðarráðherra að taka iðnaðarlögin til endurskoðunar. Katrín Júlíusdóttir, þáverandi iðnaðarráðherra, setti í febrúar 2011 á laggirnar nefnd til að endurskoða iðnaðarlögin. Nefndin var eingöngu skipuð lögmönnum og háskólamenntuðum „sérfræðingum“ og engum starfandi iðnmeistara, enda komst hún að þeirri niðurstöðu að einkaréttur iðnaðarmanna til starfa á sínu sviði hefði í för með sér takmarkanir á atvinnufrelsi.

Nefndin taldi nauðsynlegt að horfa til Norðurlandanna og taka þau sér til fyrirmyndar, en þar hafði farið fram umbylting og í raun eyðilegging á iðnmenntakerfum viðkomandi landa. Nefndin taldi auk þess að ekki kæmi fram í iðnaðarlögum með nægjanlega skýrum hætti hvert væri markmið laganna. Í öðrum lögum um atvinnugreinar sem hefta aðgang að frjálsri vinnu í viðkomandi grein, eins og t.d. í lögunum um störf lögmanna, er heldur enginn texti sem beinlínis lýsir markmiði laganna.

Það lýsir best hugsunarhætti ráðamanna þegar skipuð er nefnd til að fjalla um löggildingu iðngreina í landinu að ekki skuli vera einn einasti starfandi iðnaðarmaður innanborðs í nefndinni. Það vekur því ugg okkar, sem störfum á þessum vettvangi, að þessa dagana er einn „sérfræðinga“ nefndarinnar að undirbúa frumvarp í ráðuneytinu til að kollvarpa núverandi kerfi.
Nú á dögunum kom út ný yfirlitsskýrsla á vegum OECD um starfsmenntun á Íslandi. Er þar talað um einstaklega fjölbreytt og sterkt iðnnámskerfi hér á landi sem býður upp á mikla möguleika. Verður við lestur þeirrar skýrslu ekki komist að annari niðurstöðu, en að tillögur nefndar um endurskoðun iðnaðarlaga séu með öllu fráleitar. Afhverju að eyðileggja það kerfi sem aðrir lýta upp til, og okkur er hrósað fyrir?

Iðngreinarnar eru flestar aldagamlar og eiga sér mikla og ríka sögu. Hver og ein þeirra er sérstök á sinn á hátt og krefst sérhæfingar á tilteknu sviði. Iðngreinarnar eru samkvæmt aldagamalli hefð þrískiptar í nema, sveina og meistara. Iðnnám er langt og strangt ætli menn sér að öðlast meistararéttindi. Nemarnir læra af sveinum og meisturum sem náð hafa fullkomnum tökum á handverkinu. Oft er um flókið handverk að ræða sem byggir á algjörri samþættingu hugar og handar. Hingað til hefur þótt tryggt að þegar fólk skiptir við löggilta iðnaðarmenn undir stjórn meistara gangi það að bestu fagþekkingu og vönduðum vinnubrögðum vísum.

Menntastefna stjórnvalda á Íslandi hefur um árabil beinst að því að allur hinn mikli skari ungmenna fari bóknámsleiðina gegnum framhaldsskóla og endi í háskólanámi. Iðnnám hefur algjörlega setið á hakanum og oft og iðulega er gefið í skyn, jafnvel af menntayfirvöldum, að þeir sem leggja fyrir sig iðnnám séu með lægri greind en hinir. Háskólar í landinu hafa endalaust tekið við fólki sem svo er menntað algjörlega án tillits til atvinnutækifæra eða þjóðhagslegra þarfa. Þegar menn síðan standa með sín ágætu háskólaprófsskírteini atvinnulausir og án þess að atvinnulífið hafi nokkurn áhuga á þekkingu þeirra, þá byrjar hópur þessa fólks að skotra öfundaraugum til iðngreinanna og vill ganga þar til starfa án þess að hafa lært viðkomandi iðn frá grunni.

Það sem hefur veitt iðngreinunum ákveðna sérstöðu er að þær fjöldaframleiða ekki iðnaðarmenn; nemarnir eru að hluta menntaðir í iðnfyrirtækjunum sjálfum og fjöldi þeirra takmarkast af vexti og viðgangi viðkomandi greinar. Fyrirtækin geta ekki endalaust tekið á móti nemum á launaskrá, enda eru það þau sem bera drýgstan hluta kostnaðar við menntun nemanna. Iðnfyrirtækin eru samofin þjóðlífinu og lúta þeim lögmálum og takmörkunum sem markaðurinn setur.

Sá ágæti maður, Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra, hefur oft talað um að efla þurfi verkgreinar í landinu. Nú ætla ég ekki að efast um góðan vilja hans. Það skýtur hins vegar skökku við að í iðnaðarráðuneytinu sé af samráðherra hans unnið að því að brjóta niður núverandi iðnmenntakerfi í landinu. Sú aðgerð mun ekki hvetja fleiri til iðnnáms, heldur hafa þveröfug áhrif og fæla fólk frá. Undirrituðum er það hulin ráðgáta hvernig ráðherrann getur litið á það sem framfaraspor að fella niður löggildingu á einum 30 iðngreinum, m.a  kökugerð (konditori) sem er tæplega 400 ára gömul iðngrein, flókin og seinlærð til hlítar. Tugir Íslendinga hafa lagt á sig nám í greininni erlendis því ekki er hún kennd hér á landi. Það eru ríkir almannahagsmunir að starf þetta annist fullmenntaðir fagmenn sem hafa góða þekkingu, meðal annars á hreinlætisfræðum og réttum vinnubrögðum.

Flestir eru væntanlega sammála um að hér á landi eigi að ríkja atvinnufrelsi. Um það snýst málið ekki, heldur hitt, að menn hafi fullnægjandi þekkingu á því sem þeir taka sér fyrir hendur. Fagleg þekking, verkleg og bókleg er grundvöllurinn. Það kerfi sem hefur verið við lýði hefur tryggt að þeir sem hafa besta kunnáttu vottaða með áreiðanlegum hætti hafi forgang að störfum á viðkomandi sviði. Það er nákvæmlega ekkert að núverandi iðnaðarlögum í þessu tilliti. Samt kjósa stjórnvöld í landinu að hundsa lögin og vilja helst afnema þau. Hvers vegna?

Iðnaðarmenn munu ekki sitja undir því þegjandi ef stjórnvöld ætla sér virkilega að grafa undan aldagömlum iðngreinum, jafnvel eyðileggja þær. Tillögurnar sem nú koma frá ráðuneytinu lýsa fyrirlitningu á iðnmenntun þvert á öll hin fögru orð ráðamanna. Þær eru ekkert annað en gróf aðför að handverki í landinu og lögleiðing á fúski.

© Sigurður Már Guðjónsson

Höfundur er kökugerðarmeistari | Grein þessi birtist einnig á bls. 17 í Morgunblaðinu 2. desember 2013.